Með lausa skrúfu og jafnvel margar

Ég hafði heilsað honum Jan Klementz í húsagarðinum í tvö ár, áður en ég kynntist honum. Hann er svona hávaxinn, gráskeggjaður karl, með sítt hár í tagli og vingjarnleg himinblá augu, sem glitra af kímni og velvilja til alls sem er, a.m.k. á sólríkum degi. Það var kórónuvitleysan sem olli því að við kynntumst, óbeint. Jan var staddur á ströndinni, neðan við húsið sem við búum í bæði, en ég var úti að pissa með hundinn Salómon allra sætasta, smáhund af Pommakyni, sem mér áskotnaðist óforvarindis.

Meðan hundurinn var að snuðra uppi bestu pissustaðina þarna í sandinum, kastaði Jan kveðju á mig að vanda. Ég kastaði hallói á móti á minni bestu norsku, því ég heyrði á mæli hans, að hann tilheyrði því tungumáli. Áður höfðum við hallóast á, á spænsku. Það var kalsaveður, þó sólin skini, því þetta var í febrúar og á það minntumst við bæði. „Nú væri gott að fá sér kaffisopa“ sagði Jan og því játti ég heilshugar. „Ég veit um einn stað sem hefur opið hér á ströndinni“ sagði ég. „Er det sant“ spurði Jan . „Ég hélt að allt væri lokað.“ „Já“ sagði ég, „allt nema þessi eini staður hjá honum Juan.“ „Er hann norðanmaður“ spurði Jan. „Nei, en hann nennir að vinna“ sagði ég. „Komdu með í kaffið“ bauð ég og grunaði síst, að með því væri ég að bjóða sjálfri mér í ævintýri.

Maðurinn

Við settumst við borð úti í hráslaganum hjá Jóni og pöntuðum veitingar. „Hvaðan úr Noregi ert þú“ spurði ég Jan, að gömlum íslenskum sveitasið, sem maður notar þegar maður vill forvitnast um einkahagi fólks, svo lítið beri á. „Ég fæddist í Sandefjord, 23-11-1945“ sagði Jan „og ég man þegar ég var inni í maganum á mömmu minni, fæðingu mína og allt sem gerst hefur frá þeim degi, fram á daginn í dag“. Talandi um að fá skýr svör. Mér rétt tókst að halda andlitssvipnum í réttum stellingum, svo Jan hélt áfam í fullri einlægni. „Ég fékk líka vitrun, fyrir nokkrum árum, frá Guði og síðan hef ég gengið á Hans vegum“ bætti hann við, mér til glöggvunar. Mér var hugsað til íslenskra ferskeytla, þar sem skáldum hefur tekist að segja ALLT, í fjórum stuttum vísuorðum. Á Íslandi telst slíkt til snilldar. Ég veit ekki hvernig Norðmenn líta á þau mál, en ég skildi að hér var óvenjulegur maður á ferð, þar sem Jan var. Svo kastaði hann næstu sprengju. „Ég er búinn að stofna kirkju“ sagði Jan „og svo hef ég einnig málað allar vitranir mínar“. „Ég er enginn málari“ bætti hann við, „en ég mála til að útskýra betur drauminn“. „Hvaða draum?“ spurði ég. „Drauminn um Guð að sjálfsögðu“ sagði Jan og ég flýtti mér að kinka kolli, eins og að ekkert væri eðlilegra en stefnumót við hinn æðsta, hér í saltbænum Torrevieja.

„Ja, ég vaknaði eina nóttina við það að ég var dauður“

,,Segðu mér meira“ bað ég. „Ja, ég vaknaði eina nóttina við það að ég var dauður“ sagði Jan. „Og ég nálgaðist Guðdóminn eftir ýmsum krókaleiðum sem ég sýni í málverkinu. Ég klifra upp í hausinn á Guði og fer inn í hann. Þar fæ ég að vita ALLT“ bætti hann við. „Viltu að ég sýni þér málverkin?“ „Vandi velboðnu að neita“ ansaði ég, „en ég þarf reyndar að skila grein sem ég er að skrifa, svo ég hef ekki tíma til þess núna“. „Ég keypti þetta húsnæði hér norður í bæ,,sagði Jan „og er búinn að vera að innrétta það í nokkur ár. Það býr líka hjá mér 92 ára gömul kona. Hún hefur saumað gardínur og borðdúka. Það eru borð og stólar fyrir fjörutíu manns í kirkjunni minni“ bætti Jan við. Nú var forvitni mín vakin fyrir alvöru. „Hversu margir eru í söfnuðinum?“ spurði ég „Bara tveir, enn sem komið er“ svaraði Jan. „Það er góð byrjun, Jesús þarf ekki fleiri til að koma mitt á meðal vor. Ég býð upp á kirkjukaffi og slides“ bætti hann við. „Ég held ég verði að fresta þessari grein“ sagði ég. „Þetta verð ég að sjá.“ „Já mig grunaði það“ sagði Jan kíminnleitur. „Bíllinn minn stendur hérna uppi í götu og hundar eru velkomnir í kirkjuna líka“. Ég borgaði kaffið og hélt af stað með Jan að skoða kirkjuna hans og tveggja manna söfnuð.

Kirkjan

Hann ók okkur sem leið lá, norður í bæ í kirkjuna sína. Hún er á götu sem heitir Calle Bergantin númer 30 hér í Torrevieja. Sitt hvoru megin við innganginn voru myndir af Jan og Kristi. Yfir dyrunum stóð ..Milleniumkirken – Jesus Kristus – Jan Klementz.

Jan hafði greint mér undan og ofan, af upplifunum sínum í móðurkviði og af opinberuninni á guðdóminum, sem hann fékk árið 2004. Þetta, meðan við sötruðum kaffið í kuldanum á ströndinni og í bílnum á leið í kirkjuna. Það sem hann hafði að segja var merkilegt og undursamlegt og engu líkt, af því sem ég hafði áður spurt, af guðdóminum. Hann vaknaði sem sé eina nóttina og var dauður. Hann hóf landkönnun á Guði almáttugum, slíka sem ég hef enga heyrt fyrr. Hann sá ferkantað ljós, skýjaflóka sem voru eins og perlur í laginu, steina stóra og smáa, himininn, Jesús, erkiengla og heilagan anda. Það sem hann sá, bar aðeins 4 liti, hvítt, svart, grátt og dökkblátt. Aftur á móti nam hann málin og formin á öllum fyrirbærunum, með undraverðri nákvæmni. Skrif hans um upplifunina, mora bókstaflega af upptalningum á stærð og lögun allra hluta, í metrum og sentímetrum talið og er flatarmálsfræðin alls ráðandi í lýsingum hans. Engu var líkara en að hann væri að kortleggja Guðdóminn eða teikna grunnmynd af honum, eins og arkitekt eða smiður gerir vinnuteikningar af verki, sem hann ætlar öðrum að smíða eftir. Leikmanni fer að leiðast að heyra um allar þessar tölur.

Málverk og höggmyndir

Þó ég hafi hlustað með athyggli á frásögn Jans, hefði samt ekkert getað búið mig undir að sjá sögu hans í málverkum og höggmyndum, sem hann hafði síðan skapað eftir sýnum sínum. Þegar ég gekk inn í kirkjuna, sem var stórt rými á götuhæð í ágætu húsi í norðurbænum, varð ég stórum undrandi. Við blöstu á veggjunum, feiknamiklir dúkar í fyrrnefndum litum, en rýmið sjálft var alhvítt. Nokkrir „skúlptúrar“ voru þarna líka, svartir, bláir og gráir í nákvæmum hlutföllum. Allt þetta var framúrstefnulegra, en nokkuð sem ég hafði áður séð.

Jan er enginn málari eða myndhöggvari, viðvaningsbragðið er auðsætt á verkunum. Samt eru verkin ekki klúr. Miklu fremur hvílir yfir þeim heiðríkja, jafnvel kaldrani, sem maður finnur annars aðeins á fjöllum uppi og þó voru verkin allt annað en jarðnesk. Jan hafði aldrei málað neitt áður en hann fékk þessa vitrun. Segja má að hann hafi ekki kunnað að draga til stafs í þeim efnum. Sem listaverk eru verkin einskis virði, en sem VITNISBURÐUR UM SIGUR MANNSANDANS ERU ÞAU ÓBORGANLEG. Ekki kæmi mér á óvart, þó þau seldust einn daginn á ofurverði, vegna sögulegs mikilvægis.

Jan leiddi mig fyrir verkin og útskýrði hvað var að gerast á hverjum dúk og gaf mér svo tvo bæklinga sem hann hefur skrifað um upplifun sína.

Söfnuðurinn

Ég gekk um salinn og skoðaði myndirnar. Þær voru afar óvenjulegar, en allt hvíldi þó í sjálfu sér. Jan hafði einnig innréttað pall til að sýna „slides“ á og hafa fyrir hljómtæki. Sömuleiðis var þarna eldhús, svefn- og baðherbergi, þar sem gestafyrirlesarar gætu búið, svo og snyrtingar fyrir kirkjugesti. Hann keypti rýmið hrátt og vann alla vinnuna sjálfur. Jan á góða íbúð í sama húsi og ég bý í. Þar leigir hann eitt herbergi út frá sér, 92 ára gamalli konu, Ullu að nafni. Hún hefur saumað allt fyrir hann, sem þarf í kirkjuna. Enn sem komið er, eru þau Ulla einu safnaðarmeðlimirnir í kirkju Jans Klementz.

Ég veit ekki vel hver áhrif Jan og verk hans höfðu á mig, en eitt er víst, þeim verður ekki svo auðveldlega gleymt. Þau eru ekki fögur í eiginlegum skilningi, en þau grípa mann og eru meira en máttug í tölfræði sinni. 14 málverk eru í sjálfri kirkjunni, en 65 eru á heimasíðu kirkjunnar á netinu. Og Jan er enn að mála.

Niðurlag:

Ef þú sem þessar línur lest, hefur áhuga á að kynnast verulega óvenjulegum manni, nú á þessum síðustu, andlega steindauðu tímum, þegar Covid hefur komið í Krists stað, leggðu þá leið þína í kirkju Jans Klementz, með tveimur safnaðarlimum í calle Bergantín, því þar er sannarlega Jesús mitt á meðal þeirra.

Á íslensku er til heilræðavísa sem leiðbeinir um þessi mál. Hún er svona:

Trúðu á tvennt í heimi,
tign sem æðsta ber:
Guð í alheimsgeymi,
Guð í sjálfum þér.

Ég, sem ekki aðhyllist nein trúarbrögð, trúi á Guð í Jan Klements. Ég hefi nefnilega séð hann með eigin augum. Bláan, hvítan, svartan og gráan, í öllum formum flatarmálsfræðinnar. Jan trúir því, að hann sé fjórði hluti hins fjóreina Guðs og sé spámaður hans.

Jan trúir því, að hann sé fjórði hluti hins fjóreina Guðs og sé spámaður hans.

Hann heldur einnig að hann verði settur af föðurnum, til að stríða við hið illa, ásamt bróður Kristi og ganga milli bols og höfuðs á syndinni. Ekkert hálfkák þar. Hvenær, þetta verður er enn þá dálítið óljóst, en ég yrði ekki hissa, þótt Jan tækist ætlunarverk sitt.

Svo undursamleg eru verk skaparans og þar á meðal Jan Klementz og dúkar hans.

Torrevieja, 3.apríl 2021
Ylfa Carlsson

Ljósmyndirnar tók Hrafnhildur Bartels

Heimilisfang kirkjunnar er:

Calle Bergantin 30, Torrevieja, 03182.
Sími Jan: 0034-6805 33041.
14 málverk eru í kirkjunni sjálfri. U.þ.b. 65 eru á Internetinu.
Slóðin er: milleniumkirken.church

 

Loading

Deila: