Alþingi sviptir lífeyrisþega persónuafslætti

Laugardagurinn 16. desember 2023

Eins og gengur og gerist að þá var síðasti starfsdagur Alþingis annasamur en 11 frumvörp urðu þá að lögum. Hér er fjallað um breytingar sem voru gerðar á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003 þar sem breytingarnar koma við pyngju ansi margra lífeyrisþega sem búsettir eru erlendis.

II. KAFLI þessara laga fjallar um breytingar á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 og ætla ég að fjalla hér um 11. grein og 36. grein enda snerta þessar greinar lífeyrisþega sem búsettir eru erlendis en með misjöfnum hætti þó. Greinin hljóðar svo:

11. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
  • a.      3. mgr. 2. tölul. orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal tekjuskattur eftirlaunaþega og lífeyrisþega sem um ræðir í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. reiknast af tekjuskattsstofni skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 66. gr. án persónuafsláttar.
  • b.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
  • 11.      Tekjuskatt aðila sem um ræðir í 11. tölul. 1. mgr. 3. gr. skal reikna sem hér segir:
  • a.      Af tekjuskattsstofni með skatthlutfalli skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 66. gr., án persónuafsláttar ef um mann er að ræða.
  • b.      20% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. tölul. 61. gr., ef um lögaðila skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. er að ræða.
  • c.      37,6% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. tölul. 61. gr., ef um aðra lögaðila er að ræða.

Persónuafslátturinn fellur niður hjá þeim lífeyrisþegum, sem búsettir eru erlendis. Það er í mörgum tilfellum töluverð tekjurýrnum. Á vefsíðu RSK kemur fram að persónuafsláttur á árinu 2024 er allt að 64.926 á mánuði, eða 779.112 á ári. Þessi nýju lög mismuna Íslendingum sem búsettir eru erlendis með lífeyristekjur frá Íslandi með tvennum hætti – annars vegar uppruna teknanna og hins vegar eftir tvísköttunarsamningsgerðinni á milli Íslands og búsetulandsins.

Frádráttaraðferðin er notuð á milli Íslands og Norðurlanda þannig að þarlendir íslenskir lífeyrisþegar greiða fulla skatta á Íslandi en fá þá frádregna í uppgjöri í búsetulandinu. Hingað til hafa þessir Íslendingar greitt búsetulandinu viðbótarskatt þar sem skattar eru þar hærri en á Íslandi.

Undanþáguaðferðin er notuð á milli Íslands og Spánar og þar kemur mismununin enn skýrar fram. Tekjur sem lífeyrisþegar hafa frá opinberum lífeyrissjóðum, t.d. LSR og BRÚ, eru ávallt skattlagðar á Íslandi og skv. þessum lögum fæst enginn persónuafsláttur vegna þessara tekna eftir lagabreytinguna. Tekjutap lífeyrisþega getur því numið allt að 64.926 á mánuði eða 779.112 á ári. Spænska ríkið skiptir sér ekkert af þessu uppgjöri enda eru þessar tekjur undanþegnar skatti á Spáni.

Tekjur frá TR og almennum lífeyrissjóðum, t.d. VR, eru ávallt skattlagðar í búsetulandinu, þ.e. á Spáni sé búsetan þar.

Hvenær taka þessi lög gildi?

Um það fjallar 36. grein þessara laga. Þar kemur skýrt fram að þessari breytingu er ætlað að gilda frá 1. janúar 2025.

36. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
  • Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024, nema 8. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2034 og a-liður 11. gr. og 22. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2025.
  • Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 27. og 28. gr. þegar gildi.
  • Ákvæði 1.–5. gr. gilda um þær gistináttaeiningar sem afhentar eru frá og með gildistöku þeirra greina.

Takið eftir! Þessi breyting tekur gildi 1. janúar 2025!

Einnig hefur borið á því að skattfrelsi almennra lífeyristekna á Íslandi skv. eyðublaði RSK 5.49 hafi fallið niður. TR hefur ekki skráð skattfrelsið eins og áður sem 10.000% persónuafslátt heldur hreinlega fellt hann niður um þessi áramót. Hvort að RSK hafi látið undir höfuð leggjast að tilkynna þeim um hverjir eigi að njóta skattfrelsis á almennar lífeyristekjur skal ósagt látið. Að minnsta kosti fer lítið fyrir tilkynningum RSK um skattfrelsið.

29. desember 2023

Unnið er að því að vinda ofan af þessu klúðri. Inga Sæland birti færslu á Facebook þess efnis:

Nú liggur það ljóst fyrir að verið er að leiðrétta þessi ömurlegu mistök sem Skatturinn ber ábyrgð á. Tryggingastofnun hefur keyrt kerfin sín í samræmi við tilmæli skattsins og þannig tekið persónuafsláttinn af fólki sem býr erlendis og fær greiðslur frá TR ásamt því að hafa sent út yfirlit fyrir árið 2024. Eftir gott samtal við fjármálastjóra TR í morgun liggur það fyrir að TR greiðir út í dag og verið er að freista þess að ná að leiðrétta mistökin fyrir kl. 15. Ef það gengur ekki upp tæknilega, munu allir fá leiðréttingu og persónuafsláttinn sinn greiddan þann 2. jan. 2024. Þannig að ekki hafa áhyggjur við náðum að fresta þessum ljóta gjörningi til 1. jan 2025 og munum nýta næsta ár í að berjast gegn gildistöku þeirra yfirleitt.

Loading

Deila: