
Frá Íslandi til Spánar
Við fluttum lögheimili okkar frá Íslandi til Spánar 18. febrúar 2019 og vorum því réttilega skattlögð á Spáni allt árið 2019.
Aftur á móti þá skattlagði RSK ranglega tímabilið frá 1. janúar til 18. febrúar 2019 með kúnstum. Um það er skrifað HÉR og HÉR.
Úrskurður Yfirskattanefndar vegna okkar máls.
Hér úrskurðar Yfirskattanefnd á þann veg að þegar maður flytur úr landi þá skipta ríkin með sér skatttekjum eftir tímabilum þrátt fyrir að tvísköttunarsamningur Íslands við Spán er “undanþágusamningur” en það þýðir að allt almanaksárið er annaðhvort skattlagt á Íslandi eða Spáni. Engar undantekningar eru frá þeirri reglu nema greiðslur frá opinberum lífeyrissjóðum og greiðslur sem eru bundnar heimilisfesti í hvoru landinu eru skattlagðar í því landi sem greiðslurnar inna af hendi.
Frá Spáni til Íslands
Við fluttum lögheimilið aftur til Íslands 30. maí 2023 þar sem mér var ranglega meinað að sækja um ellilífeyri beint til TR. Um það er skrifað HÉR. Eftir flutninginn sótti ég um ellilífeyri til TR og fæ fyrstu greiðslu 1. ágúst 2023. Eitthvað sem ég hefði átt að geta án þess að lögheimilið væri flutt til Íslands.
Haldi ég lögheimilinu á Íslandi út árið þá skattleggur Ísland réttilega allt árið og Spánn tekur ekkert til sín vegna ársins þar sem dvalardagarnir þar eru færri en 183. Það er í samræmi við tvísköttunarsamning sem ríkin hafa gert með sér.
Tvísköttunarsamningurinn á að virka eins í báðar áttir en gerir það augljóslega ekki á meðan RSK og Yfirskattanefnd leita allra leiða til að hafa af fólki fé nema lögfræðingar þessara stofnana geti ekki lesið sér til gagns á lög. Það kristallast í afstöðu lögfræðinga RSK og torfsins sem kom frá Yfirskattanefnd. Virðast lögfræðingar bæði RSK og Yfirskattanefndar teygja sig mikið lengra en talist getur eðlilegt í því að skara eld að köku íslenska ríkisins.
Munurinn á tvísköttunarsamningunum er útskýrður HÉR.
Samkvæmt ofangreindu er kæruleiðin gagnslaus. Eina aðferðin sem Íslendingar geta notað til að forðast tvísköttun er að flytja til Spánar þegar 183 dagar eru liðnir af almanaksárinu. Þá greiða þeir alla sína skatta á Íslandi því þeir eru ekki skattskyldir á Spáni það árið heldur því næsta dvelji þeir þar lengur en 183 daga. Flytjir þeir til Spánar á fyrri hluta árs þá mismunar RSK og Yfirskattanefnd viðkomandi og tvískattar hýruna þeirra ranglega vegna fyrri hluta ársins.
Verst að mennirnir sem gerðu þessa tvísköttunarsamninga eru farnir frá og núverandi lögfræðingar þurfa því að treysta á sitt eigið hyggjuvit og læsi á lög.
Sértu tvískattaður með sama hætti þá geturðu óskað eftir leiðréttingu 6 ár aftur í tímann.