TR – “Computer Says No”

Fyrst birt 25. mars 2023

Nýverið ætlaði ég að sækja um ellilífeyri frá TR með góðum fyrirvara. Á heimasíðu TR er aðeins gefinn kostur á rafrænu umsóknareyðublaði með þeim ágalla að erlendum búsettum er meinaður aðgangur að eyðublaðinu með þeirri ábendingu að sækja um í búsetulandi eða breyta skráningu lögheimilis í Þjóðskrá.

Vefsíða TR vísar mér á búsetuland.

Mér fannst þetta skerðing á þjónustu TR við skjólstæðinga sína því ég byrjaði töku lífeyris 60 ára hjá lífeyrissjóðum og flutti eftir það til Spánar þar sem ég á engin réttindi.

Það liggur fyrir að öllum umsóknum til INSS og annarra opinberra stofnana á Spáni þarf að fylgja nýlegt padrón (Innan þriggja mánaða gamalt). Þessi krafa þýðir að það þurfi að fara í tvo staði til að leggja fram umsókn um ellilífeyri hjá viðeigandi stofnun auk þess sem maður þarf að hafa með sér túlk í bæði skiptin enda talar maður ekki spænsku. Þessi umsókn er svo send innanlands til aðalskrifstofunnar sem sendir hana svo áfram til Íslands.

Á endanum er það svo Tryggingastofnun sem afgreiðir umsóknina eftir allar þessar krókaleiðir. Fannst því við hæfi að sækja um ellilífeyrinn beint til TR með því að senda þeim skeyti á TR – Erlend mál. Hér verða rakin skeytasendingarnar sem fóru á milli mín og TR.

Umsókn um ellilífeyri – eyðublað

Fyrsta skeytið

Ég er að athuga með umsókn um snemmtekinn ellilífeyri og finn ekki eyðublað á tr.is sem hentar til að sækja um. Rafræna umhverfið er að þessu leiti mér lokað.

Þar er samt gert ráð fyrir að menn geti sótt um ellilífeyri hjá ykkur séu þeir búsettir í Bandaríkjunum og örorkulífeyrisþegar geta fyllt út eyðublað um endurmat.

Ég byrjaði á ellilífeyri 60 ára frá lífeyrissjóðum á Íslandi og nokkrir bætast við við 65 ára aldur. Þið eigið að hafa fengið tilkynningar um þá alla á undanförnum dögum. Ég hef hugsað mér að flýta töku ellilífeyris frá TR um 24 mánuði.

Ég hef full réttindi til ellilífeyris á Íslandi enda þar búsettur þar til nýverið í 40 ár . Ég hef engin réttindi til nokkurskonar lífeyris á Spáni. 

Eyðublaðið sem er mér sýnt á ensku á tr.is hentar ekki þar sem er gert ráð fyrir að ellilífeyrinn sé lagður inn á erlendan reikning.

Hafið þið eyðublað sem þið getið sent mér til útfyllingar og þá helst á íslensku?

Kveðja,
Karl Kristján Hafst Guðmundsson
(kennitala)

Fyrsta svar TR

Sæll Karl,

Samkvæmt Evrópusamning um almannatryggingar þarf umsókn um lífeyri að berast frá búsetulandi. Þú þarft því að hafa samband við spænsku stofnunina INSS á Spáni og sækja um lífeyri til Íslands í gegnum þá stofnun, þó svo að þú eigir ekki rétt á lífeyri frá Spáni. Þegar TR móttekur umsóknina frá spænsku stofnuninni munum við hafa samband við þig og greiða þér lífeyri beint. Spænska stofnunin er aðeins milliliður í umsóknarferlinu. Mikilvægt er að tilkynna spænsku stofnuninni hvenær þú vilt hefja töku lífeyris á Íslandi.

Með kveðju,

Annað skeytið

Getur þú sent mér þennan samning?

Kveðja,
Karl Kristján Hafsteinn Guðmundsson
(kennitala)

Annað svar TR

Sæll Karl,

Hér að neðan er slóð á heimasíðu Evrópusambandsins þar sem þú getur valið tungumál og snið samningsins. Samningurinn er ekki til á íslensku.

https://eur-lex.europa.eu/legal-content/en/ALL/?uri=CELEX%3A02004R0883-20190731

Með kveðju,

Þriðja skeytið

Það hlýtur að vera til regla á íslensku sem kveður á um nákvæmlega þetta, annaðhvort í lögum eða reglugerð.

Nú hef ég lesið þennan samning sem þú vísaðir til og ekkert ákvæða hans snýr að því að ég eigi að skila inn umsókn um greiðslu lífeyris frá TR í búsetulandinu. Ekki einn stafkrókur sem er hægt að túlka í þá veru. Nema hugsanlega einn en hann segir að maður eigi snúa sér að síðasta aðilanum sem maður hefur áunnið sér réttindi hjá – í mínu tilviki TR. Aftur á móti finnst mér eðlilegt að Íslendingar búsettir erlendis megi snúa sér að systurstofnunum TR með sína fyrstu umsókn enda flestir (ekki ég) sem hafa verið á vinnumarkaði erlendis og hafa því einhver áunnin réttindi í búsetulandinu.

Ég las einnig lög um almannatryggingar (https://www.althingi.is/lagas/nuna/2007100.html) og þar er heldur ekkert ákvæði að finna um að mér sé skylt að sækja um greiðslur frá TR í búsetulandinu. Ekki stafkrókur. Enga fann ég reglugerðina sem snýr að þessu.

Þannig að mér er spurn hvar þessi regla er á blaði. Mér finnst með öllu óeðlilegt að Íslendingum sé vísað á búsetuland þegar þeir eiga full réttindi á Íslandi og engin í búsetulandinu. Þessar systurstofnanir TR eru þekktar fyrir að taka sér tíma í að afgreiða svona umsóknir, jafnvel hálft árið. Það er aftur á móti mjög eðlilegt að Íslendingar geti sótt um sinn lífeyri beint til TR og það á íslensku. Skattframtal frá búsetulandinu er svo alltaf sent inn til TR frá Spáni svo þeir geti fylgst með tekjum viðkomandi. Meira að segja þá liggja nokkur þeirra inni hjá TR nú þegar vegna örorkulífeyris konu minnar.

Enn og aftur, ég óska eftir því að fá eyðublað frá TR á íslensku sem ég get sent inn um hæl til að sækja um ellilífeyrinn eða þá að það sé opnað fyrir þá umsókn þannig að ég geti sótt um með rafrænum hætti þrátt fyrir að vera búsettur erlendis.

Með fyrirfram þökk,
Karl

Þriðja svarið

Sæll Karl,

Hér er ákvæðið um hvar eigi að leggja fram umsókn í 45. gr. framkvæmdareglugerðarinnar nr. 987/2009. Þar kemur eftirfarandi fram: 

B. Framlagning annarra umsókna um bætur
4. Við aðrar aðstæður en þær sem um getur í 1. mgr. skal
umsækjandi leggja fram umsókn hjá stofnun á búsetustað
sínum eða hjá stofnun í því aðildarríki sem setti þá löggjöf sem
gilti síðast.
Ef hlutaðeigandi einstaklingur hefur aldrei heyrt
undir löggjöfina sem stofnun á búsetustað starfaði eftir skal sú
stofnun senda umsóknina til stofnunar í því aðildarríki sem
setti þá löggjöf sem gilti síðast.
5. Afhendingardagur umsóknar skal gilda í öllum viðkomandi
stofnunum.

Vinsamlegast fáðu stofnunina í búsetulandi til að senda umsókn til TR.

Með kveðju,

Fjórða skeytið

Það fylgdi reyndar enginn hlekkur á þessa íslenskun reglnanna sem þú vísar til. Þannig að ég las mig til á https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/PDF/?uri=CELEX:32009R0987&from=GA á ensku tungumáli.

Þar gengur 40. grein framar 45. grein og þar er sagt í þýðingu Google Translate (feitletrunin er mín):

40. gr

Skil og rannsókn á kröfum um lífeyri eða viðbótargreiðslur

Til þess að fá lífeyri eða viðbótargreiðslur skv löggjöf aðildarríkis, hlutaðeigandi einstaklingur eða eftirlifendur hans sem eru búsettir á yfirráðasvæði annars aðildarríkis skulu, eftir því sem við á, leggja fram kröfu annaðhvort til þar til bærrar stofnunar  eða til stofnunar á búsetustað sem sendir það til þar til bærrar stofnunar.

Krafan skal innihalda þær upplýsingar sem krafist er samkvæmt þeirri löggjöf sem þar-til-bær-stofnun beitir.

Valið er semsagt mitt  á   skv. þessari grein, ekki ykkar. Enda er tóm vitleysa að þvæla umsókninni í gegnum einhvern millilið og gerir ekkert annað en að tefja fyrir afgreiðslu málsins.

Vinsamlegast staðfestið.
Karl

Fjórða svarið

Góðan dag,

Hér er íslenska þýðingin á 40. gr.:

Þar gengur 40. grein framar 45. grein og þar er sagt í þýðingu Google Translate (feitletrunin er mín):

40. gr

Skil og rannsókn á kröfum um lífeyri eða viðbótargreiðslur

Til þess að fá lífeyri eða viðbótargreiðslur skv löggjöf aðildarríkis, hlutaðeigandi einstaklingur eða eftirlifendur hans sem eru búsettir á yfirráðasvæði annars aðildarríkis skulu, eftir því sem við á, leggja fram kröfu annaðhvort til þar til bærrar stofnunar  eða til stofnunar á búsetustað sem sendir það til þar til bærrar stofnunar.

Krafan skal innihalda þær upplýsingar sem krafist er samkvæmt þeirri löggjöf sem þar-til-bær-stofnun beitir.

Þetta þýðir að umsókn hefst í búsetulandi sbr. 45. gr.  Það er engin ein grein sem gengur framar annarri í þessari reglugerð.

Með kveðju,

Fimmta skeytið

Jú, jú. Greinin sem þú vísaðir til átti ekki við ellilífeyri. Reglurnar segja þetta skýrt “senda umsóknina til þar til bærrar stofnunar” EÐA “stofnunar á búsetu- eða dvalarstað”.

Þetta þýðir einfaldlega að ég geti sent umsóknina beint á TR eða INSS á Spáni. Á endanum afgreiðið þið allar umsóknirnar hvort sem þær berast ykkur beint eða í gegnum (í mínu tilfelli) óþarfan millilið enda á ég engin réttindi til lífeyris á Spáni.

Þessi túlkun að ég EIGI að sækja um hjá INSS er mér afskaplega í óhag. Þeir tala ekki íslensku, eru með eyðublöð á öðrum tungumálum sem henta hreinlega ekki íslenskum aðstæðum og eru gapandi hissa á því að Íslendingar séu að sækja um hjá þeim þegar þeir hafa engin réttindi að sækja til þeirra. Svo þarf að framvísa nýju vottorði um búsetu ef maður á erindi til þeirra. Þeir þurfa víst staðfestingu á því að ég sé hjá INSS í réttu sveitarféagi.

INSS hérna í Torrevieja sendir allar umsóknir til aðalskrifstofunnar ef þau kosta samskipti við útlönd og þeir virðast taka sér tíma í að afgreiða þær. Margar umsóknir eru að velkjast um í kerfinu hérna í hálft ár eða meira. Þegar maður snýr sér að þessari stofnun þá þarf maður að koma með vottorð um skráningu í sveitarfélag (padrón) og það vottorð má ekki vera eldra en þriggja mánaða sama hvert erindið er. Þessi vottorð kosta, líka túlk í flestum tilfellum.

Systurstofnun ykkar sjukra.is gafst t.d. upp á því að senda aðalskrifstofunni S1 vottorðin því það kostaði Íslendinga minnst mánaðartöf hið minnsta ef afgreiðsla þeirra tókst ef miðað er við fyrri afgreiðsluhætti. Margar þessar umsóknir týndust.

Erfitt er að sjá hvaða hagkvæmni TR hefur af því að vísa Íslendingum með öll sín réttindi frá sér til aðila sem hefur engra hagsmuna að gæta. Og það aðeins vegna hentisemistúlkunar/misskilnings TR á Evrópureglunum. Ég veit til þess að Íslendingar sem hafa farið framhjá þessari heimatilbúnu túlkun ykkar á reglunum með því að flytja lögheimilið til Íslands um stundarsakir á meðan umsóknin er lögð inn.

Vinsamlegast staðfestið að þið takið aftur við umsóknum um ellilífeyri frá Íslendingum búsettum erlendis og virðið þannig reglurnar sem þið segist fara eftir.

Kveðja,
Karl

Fimmta svarið

Góðan dag,

Málið þitt hefur verið sent inn til lögfræðinga, þau munu svara þér innnan tíðar.

 Með kveðju,

Niðurstaða samskiptanna

Þá er bara að vona að lögfræðingar TR geti lesið sér til gagns. Þessi grein verður uppfærð ef niðurstaða fæst. TR til hróss að þá gengu þessi samskipti í gegn á innan við viku og svör TR ávallt skýr og sett fram af mikilli lipurð þótt unnið sé eftir rangri túlkun á þeim samningi sem þeir eru aðilar að. TR hefur reyndar sama umboðskerfi innanlands og þar geta Íslendingar snúið sér beint að aðalskrifstofunni eða umboðsaðila. Samkvæmt því regluverki sem Ísland er aðili að https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/PDF/?uri=CELEX:32009R0987&from=GA að þá var ekki meiningin að skerða þjónustu við erlendis búsetta heldur gefa þeim sama val og þeir hafa innanlands að þessu leiti.

Góðar stundir.

Hagsmunamál 50 þúsund Íslendinga erlendis

Sjá einnig https://kalli.is/islendingar-skradir-erlendis/


Framhaldið…

Sjötta svarið (frá lögfræðingi TR)

Sæll Karl,

Biðst velvirðingar á töfum á svörum við spurningum þínum. Hef því miður bæði átt við veikindi og miklar annir að stríða.

Aðalreglan varðandi umsókn um lífeyri þegar um búsetu í fleiri en einu aðildarríkja EES-samnings hefur verið að ræða er að sótt sé um í því landi þar sem viðkomandi er búsettur þegar hann sækir um. Með því er gert ráð fyrir því að umsækjandi sé að sækja um í því landi þar sem hann var síðast tryggður og að það land beri ábyrgð á því að senda umsóknina áfram til þeirra samningslanda þar sem umsækjandi hefur verið tryggður.

Ef umsækjandi sækir um í öðru landi en þar sem hann er búsettur er gert ráð fyrir að umsóknin sé framsend til búsetulandsins. Þetta þýðir að það tefur yfirleitt afgreiðslu umsóknarinnar að senda umsókn til lands sem umsækjandi hafði áður verið búsettur í þar sem það tekur yfirleitt lengri tíma að fá umsóknina afgreidda í búsetulandinu þegar hún kemur frá öðru landi heldur en ef umsækjandi skilar umsókninni sjálfur inn í búsetulandinu.

Hægt er að gera undanþágu frá því að umsókn sé skilað til búsetulandsins en þá þurfa að fylgja með staðfestar upplýsingar frá viðeigandi yfirvöldum þar í landi um að umsækjandi hafi ekki verið tryggður í almannatryggingum viðkomandi lands, t.d. vegna þess að hann hafi verið orðinn lífeyrisþegi áður en hann flutti þangað.

Kveðja,

Sjötta skeytið

Sæl Halldóra,

Þú segir sjálf “…er gert ráð fyrir því að umsækjandi sé að sækja um í því landi þar sem hann var síðast tryggður”. Þessi orð eru veruleg þrenging á reglunum sem áður hefur verið vísað til. Í þeim kemur skýrt fram að umsækjandinn ráði því alfarið hvert hann snúi sér. Hann á að geta sótt um beint til TR eða INSS á Spáni hugnist honum það. En til fróðleiks þá var ég síðast tryggður á Íslandi.

Andi ESB reglnanna sem vísað er til er ekki að þrengja að umsækjendum heldur þvert á móti er þeim ætlað að gera þeim auðveldara fyrir með útvíkkun reglnanna til búsetulands. Dæmi:

Ef ég væri skráður með lögheimili á Íslandi þá gæti ég sótt um beint til TR eða hjá einhverjum umboðsmanna TR innanlands. Þessum reglum er ætlað að útvíkka þetta fyrirkomulag til búsetulands annars en Íslands en ekki þrengja umsóknarkostina eins og starfsfólk TR vill meina. Nákvæmlega engar þrengingar eru í reglunum heldur aðeins útvíkkun. Eins og oftar þegar maður leitar til opinberra aðila að þá rekst maður á svona veggi sem hafa verið reistir af fólki sem getur ekki lesið sér til gagns eða treystir á að aðrir geti það ekki.

Það er því verið að túlka þessar reglur eftir óútskýrðum “hentugleikum” stofnunarinnar. Getur verið að TR afgreiði hlutina svona bara til að gera umsækjendum erfitt fyrir?

Það liggur ljóst fyrir að áður en ég flutti til Spánar þá var ég orðinn lífeyrisþegi á Íslandi, sbr. skattframtöl áranna á undan. S1 vottorð voru útgefin þrjú hjá Sjúkratryggingum Íslands áður en ég sótti um ellilífeyri frá TR. Allt eru þetta upplýsingar sem íslenskar stofnanir hafa og TR ætti að vera ljóst að þessi S1 vottorð veiti aðgang að almannatryggingum viðkomandi lands, a.m.k. Spánar í mínu tilfelli. Það er því alger óþarfi að krefjast einhverra staðfestinga í búseturíki um annan aðgang að almannatryggingum þeirra. Maður þarf bara einn aðgang. 

Sjálfur flutti ég lögheimilið til Íslands í lok maí, sótti um ellilífeyrinn og fékk afgreiðslu umsóknarinnar um daginn. Maður á samt að geta sótt um án þess að flytja lögheimilið til Íslands. Öll gögn eru fyrirliggjandi, meira að segja spænsku skattframtölin sýna hvaðan tekjurnar koma og TR hefur ötullega krafist eintaks af skjólstæðingum sínum hingað til.

Ég rek upplýsingasíðuna Kalli á Spáni kalli.is en hennar hlutverk er að veita gagnlegar upplýsingar til Íslendinga sem flytja til Spánar. 

Um þetta verður ritað þar.

Kveðja,
Karl Kristján Hafsteinn Guðmundsson

Sjöunda svarið (frá lögfræðingi TR)

Sæll Karl,

Það er ekki verið að þrengja reglurnar þar sem það er heimilt að skila umsókn inn annaðhvort í búsetulandi eða landi sem viðkomandi var síðast tryggður í.

Á hinn bóginn þarf umsókn að koma til afgreiðslu í öllum þeim löndum sem viðkomandi hefur verið búsettur í nema framvísað sé gögnum sem sýna fram á að ekki sé til staðar réttur í viðkomandi landi.

Einstaklingur sem er búsettur á Spáni og sendir umsókn til Íslands án þess að sýna fram á að hann eigi ekki tryggingaréttindi í búsetulandinu er þannig að fara lengri leiðina þar sem þá þarf Tryggingastofnun að byrja á því að óska eftir upplýsingum frá spænskum yfirvöldum um tryggingaréttindi einstaklingsins þar í landi. Það tekur alltaf lengri tíma að fá umsókn afgreidda ef Tryggingastofnun þarf að óska eftir upplýsingum frá erlendri stofnun í stað þess að umsækjandinn afli þeirra sjálfur.

Einstaklingur sem er búsettur á Spáni á ekki að njóta betri stöðu með því að flytja lögheimili sitt til Íslands til þess að geta sótt um lífeyrisréttindi hér á landi. Ef hann hefur ekki verið tryggður á Spáni og getur sýnt fram á það, t.d. með S1 vottorði um að hann sé áfram tryggður á Íslandi og gögnum sem sýna fram á að hann hafi ekki verið í vinnu á Spáni getur hann sent umsókn beint til Íslands á grundvelli þess að það sé landið þar sem hann var síðast tryggður.

Í þessu sambandi skal bent á það að Tryggingastofnun hafa ekki endilega aðgang að skjölum og ákvörðunum frá öðrum stofnunum, hvorki hér á landi né erlendis. S1 vottorð frá Sjúkratryggingum ásamt spænskum skattframtölum væru t.d. gögn sem umsækjandi sem er búsettur á Spáni gæti framvísað til þess að sækja beint um á Íslandi.

Kveðja, 

Sjöunda skeytið

Sæl Halldóra,

Það er ekkert nýtt að opinberir starfsmenn búi til flækjustig og verji það svo með kjafti og klóm.

Minni á að afgreiðsla TR við umsókn minni í byrjun var á þann veg að mér var vísað á INSS á Spáni og því haldið fram að ég gæti ekki sótt um beint til TR. Engar málalengingar. Engar undantekningar. 

Málið er að TR fær öll umbeðin gögn frá skjólstæðingum sínum á Spáni. Þau eru:

Lífsvottorð (árlega)

Skattfrelsi (árlega í gegnum skattinn)

Spænskt skattframtal

Að bæta við þetta einhverju vottorði frá spænskum skattyfirvöldum er að bera í bakkafullan lækinn. Algjört bull þegar horft er til þess að þeir sem hafa flutt til USA geta sótt um beint til TR. Einnig minni ég á að árlega fer fram uppgjör þar sem fólk er ýmist í mínus eða plús. 

Eins og ég segi, þetta lítur út fyrir mér að metnaðurinn er lagður í það að þvæla skjólstæðingum TR hingað og þangað að óþörfu.

Það skal tekið fram að ég flutti lögheimilið til Íslands og sótti svo um. Afgreiðslan var jákvæð án þess að ég væri krafinn um nokkur gögn frá Spáni umsókninni til stuðnings. Hárrétt afgreiðsla. 

Kveðja,

Karl

Hvað gera svo Íslendingar á Spáni?

Þeir sem eiga þess kost flytja lögheimilið til Íslands, staðfesta komu sína þangað, sækja um ellilifeyri á vefnum, bíða niðurstöðu og jafnvel eftir fyrstu greiðslu.

Að þessu loknu þurfa menn að koma sér aftur inn í spænskt samfélag. Gott er að athuga gildistíma á vegabréfum, ökuskírteinum og Evrópska sjúkratryggingakortinu og endurnýja ef þörf er á því.

Þeir sem eiga þess ekki kost nota aðferðina sem TR vill að allir Íslendingar á Spáni noti, þ.e. snúi sér að næstu skrifstofu INSS og sæki þar um á til þess gerðu eyðublaði. Þessi umsókn er svo send til aðalskrifstofu INSS og þaðan til Íslands.

Ferlið tekur um hálft ár.

Loading

Deila: