Áskorun til dómsmála- og utanríkisráðherra

Rafrænar umsóknir vegna endurnýjunar vegabréfa

Háttvirtir dómsmála- og utanríkisráðherrar, Jón Gunnarsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir,

Samkvæmt þjóðskrá 1. desember sl. þá eru 48.951 Íslendingur búsettir erlendis. Eins og gefur að skilja þá skapast þörf hjá þessum Íslendingum að endurnýja vegabréf sín og þurfa þeir því margir að leggjast í dýr og tímafrek ferðalög til þess eins að sækja um endurnýjun vegabréfs.

Við athugun kom í ljós að aðeins 17 sendiskrifstofur og 4 aðalræðisskrifstofur taka við umsóknum um almenn vegabréf. Eins og gefur að skilja eru þessi ferðalög bæði tímafrek og kostnaðarsöm hvort sem þau eru á milli landa eða innanlands enda búum við flest í þó nokkurri fjarlægð frá þessum umsóknarstöðum.

Landamæri ríkja geta lokast fyrirvaralaust og ýmsar ferðatakmarkanir settar innan þeirra vegna styrjalda, sóttvarna eða vöruskorts og því er okkur mikilvægt að hafa þessa þjónustu aðgengilega hvar sem við erum í sveit sett, bæði innanlands og erlendis. Rafrænar umsóknir eru ekki aðeins til þæginda heldur öryggisatriði og gætu minnkað kolefnisspor talsvert innanlands standi hugur til þess.

Við þurfum að framvísa vegabréfum við ýmis tilefni enda eru þau einu persónuskilríkin sem eru tekin gild í flestum erlendum ríkjum:

  • Á ferðalögum
  • Í kosningum til Alþingis erlendis
  • Með Evrópska sjúkratryggingakortinu
  • Með S1 vottorðum sem Sjúkratryggingar Íslands gefa út
  • Í bönkum
  • Í ýmsum opinberum fyrirtækjum
  • Annars staðar sem maður þarf að sanna á sér deili

Við, undirrituð, skorum því á dómsmála- og utanríkisráðherra Íslands að koma því til leiðar hið fyrsta að tekið sé við umsóknum um endurnýjun almennra vegabréfa með rafrænum hætti bæði innanlands og erlendis.

Ofanrituðu til staðfestingar,

(Sent á netfang ráðherranna 2. maí 2023 með undirskriftarlistum í tölvutæku.

Ath! Eyðublað var hægt að undirrita til og með 30. apríl 2023.

Það var einnig hægt að skrifa undir á https://listar.island.is/Stydjum/138

Loading

Deila: