Þú heyrir vindinn leggja af stað og grösin fara á fætur.
Fjarlægt suð í humlu og lágan lækjarnið.
Rísl í laufi og andvarans unaðshvísl um nætur.
Ef þú leggur vel og grannt hlustir þínar við.
Þú heyrir dýrin tala, ef ferð þú burt úr borgum.
Og blæinn strjúka sefið, tjörninni í.
Dúfnakurr í limi, líknar þínum sorgum.
Liljur vaxa völlum á, með stórri kurt og pí.
Og hróp og köll og sjúkrabíla sírenuvæl.
Svo kallaða tónlist þú sleppur við að heyra.
Mannaþef og mál þú sendir burtu beint um hæl.
Er blessuð þögnin nær að þínu eyra.
Í borgum eru leikhús og listaverk og söfn.
Ljósadýrð og bíó, öldurhús og spil.
En ekkert jafnast á við land og ósiglda dröfn.
Ætíð þangað leita ég, hvíldarinnar til.
Ég hlakka til að deyja og dvelja í þögn.
Daga jafnt sem nætur, í næði.
Afstætt ku það vera, svo er margra sögn.
En sjálfri finnst mér tómið æðstu gæði.