San Miguel de Salinas

Á ferð minni fyrir stuttu síðan í bæinn San Miguel de Salinas, sem er einungis í u.þ.b. 15 mínútna akstursfjarlægð frá saltvötnunum (sem bærinn er kenndur við), og frá Orihuela Costa þar sem ég bý, – er margt merkilegt að sjá og upplifa.

Bærinn er al-spænskur og miðbærinn vel varðveittur sem slíkur, með þröngar götur, dimma og svala bari, gömul hús, og húsasund sem gaman og athyglivert er að ganga um og skoða.

Þar á hæð einni, eða í holti við hins frábæra veitingahúss “Las Cuevas”, er gömul, yfirgefin mannabyggð, og vinnustofur listamanna sem og geymslur, víða inngrafin í holtið.

San Miguel de Salinas stendur vel hátt, eða í 75 metra hæð yfir sjávarmáli. – Fallegt útsýni er af holtinu yfir sveitina, til Los Montesinos í norður, og í átt til Torrevieja og La Mata í norð-austur, sem og til fjallanna “Sierra Escalona” og “La Pena” á Vega Baja svæðinu (Comarca ; Vega Baja del Segura).

Í San Miguel de Salinas búa u.þ.b. 6.000 manns skv. skrá 2019, þar af allmargir íslendingar sem una hag sínum vel í þessum kyrrláta gamla bæ. – Frá rómverskum tíma hét svæðið “Nisdomia” og hefur verið tengt Orihuela frá árinu 1836 en varð sjálfstætt þorp 1955, með byggð allt frá árinu 1599.

Næstu bæir við San Miguel de Salinas eru, auk Orihuela – Bigastro, Jacarilla, Huchillo og Arneva.

Markaðurinn í San Miguel, með sína 165 sölubása, er á miðvikudögum frá kl. 8:00 til 13:00 og er gaman að feta hinar þröngu götur bæjarins til að sjá mannlífið og versla.

Sveitin sem tilheyrir San Miguel er gjöful, með ilmi af sítrónu -og appelsínutrjám sem eru á báðar hendur hvert sem ekið er. – Gróður, salt, tré, ólívur og ávextir – Þetta er lykt Spánar.

San Miguel skartar fallegri kirkju, “Parroquia de San Miguel Arcángel” og til bæjarins telst einnig hinn reisulegi kastali “Castillo de San Miguel” sem margir íslendingar, sem komið hafa á svæðið, þekkja vel. – Þar er einnig ágætt og þekkt veitingahús, “Alingui”, sem er umvafið fallegu og rómantísku umhverfi.

Hvet ég íslendinga til að skreppa þessa stuttu bæjarleið, leggja bílnum og ganga í þögninni um bæinn og njóta.

Már Elison
Öryggis -og þjónustufulltrúi
FHS, félags húseigenda á Spáni

www.fhs.is

Deila: