Hæsti kristni kross í heimi – Ætti að rífa hann niður af stalli sínum?
„El Valle de los Caídos“, eða „Dalur hinna dauðu“ í íslenskri þýðingu, er stórkostleg byggingasamstæða sem staðsett er í bænum San Lorenzo del Escorial í Madríd, rétt fyrir utan höfuðborgina. Einn meginþáttur hennar er hinn hái og stóri kross dalsins. Samstæðan hefur verið hluti af þjóðminjaskrá síðan opnun hennar fór fram, 1. apríl 1959.
Francisco Franco** fyrirskipaði byggingu þessa mannvirkis, og hann var jarðsettur þar við hliðina á José Antonio Primo de Rivera (stofnanda flokks spænskra Falangista)* – þar til við uppgröft hans í október 2019.
Um grafarstað fasista einræðisherrans, Francisco Franco hershöfðingja, höfðu, og hafa verið háðar harðar umræður í áratugi. – En lokakaflinn átti sér stað 24. október 2019.
Ríkisstjórnin lét þá grafa upp og flutti leifar Franco í kirkjugarð í Madríd. – En af hverju var kallað eftir því að flytja líkamsleifar í fyrsta lagi? – Og af hverju hefur málið reynst svona umdeilt?
Franco stjórnaði Spáni frá 1939 til dauðadags 1975. Hann var grafinn í grafhýsi í „El Valle de los Caídos“ og leiddi það til þess að staðurinn varð helgidómur fyrir hægrisinnaða og því andstyggður af mörgum Spánverjum. – Sósíalistastjórn Spánar vildi að staðurinn yrði „staður til að minnast – minnast og virða fórnarlömb stríðsins“. Stjórnin leit á tilvist leifa Francos sem móðgun við þroskað lýðræði.
Margir afkomendur fórnarlamba Franco studdu hugmyndina um að jarða líkamsleifar hans annars staðar. En málið hefur að mestu sundrað almenningsálitinu á Spáni.
Í ágúst 2018, þrátt fyrir andmæli nánustu fjölskyldu hans og hægri flokkanna, samþykkti ríkisstjórnin uppgröftinn. Hún vildi finna lágstemmdari grafreit þar sem fylgismönnum einræðisherrans myndi reynast erfiðara að heiðra hann en einnig til að fjarlægja einræðisherrann frá líkamsleifum og minningu svo margra fallinna hermanna úr stríðinu.
Nú þegar hann er ekki lengur í „Dal hinna dauðu“, hefur ríkisstjórnin tekið frekari skref, í september 2020. Ætlun þeirra er að láta prestana yfirgefa prestssetrið og að staðurinn verði borgaralegur grafreitur.
Þetta mun leiða til næstu umræðu, ef þeir vilja að byggingasamstæðan verði borgaralegur grafreitur, hvað verður þá um krossinn?
Umræðan er hafin og sumir þrýsta á að hann verði rifinn. Krossinn er án efa eitt merkilegasta kennileiti dalsins og stendur rétt fyrir ofan basilíkuna/kirkjuna. Þetta er hæsti kristni kross heims, og mælist 150 metra frá grunni. – Við rætur krossins má sjá og skoða styttur guðspjallamannanna fjögurra, svo og táknunum sem svara til hvers þeirra: Lúkas og nautið, Matteus og vængjamaðurinn, Jóhannes og örninn, og Markús og ljónið.
Hvað varðar kross-armana, þá mælast hvor þeirrra 46,40 metrar og hægt að sjá krossinn úr meira en 40 kílómetra fjarlægð.
Að innan er lyfta sem gerir þér kleift að fara upp á toppinn. – „Kross hinna föllnu“ var byggður úr járnbentri steypu og þakinn svokölluðu „berrugo“ múrverki og útskornum steini.
Til að setja hæðina í samhengi, er kross Jesú í Ríó de Janeiro aðeins 38 metrar á hæð frá grunni sínum, Frelsisstyttan í New York 93 metrar á hæð og dómkirkjan í St Paul er 111 metrar að toppi aðalspírunnar.
Miðað við umfang smíðanna, að hann sé tákn trúar, sem og hluti af sögunni, þá eru skiptar skoðanir á Spáni um hvort hann eigi að hverfa af stalli sínum í „Dal hinna dauðu“ – eða ekki.
Þýðing/endursögn og heimildaöflun :
Már Elison
Öryggis -og þjónustufulltrúi FHS,
Félags húseigenda á Spáni
Frumheimildir:
*) https://www.biografiasyvidas.com/biografia/p/primo.htm
**) https://en.wikipedia.org/wiki/Francisco_Franco