Hér er gerður samanburður á framfærslu í Reykjavík og Alicante á strípuðum ellilífeyri frá TR. Athugið að um meðaltalsútreikninga er að ræða.
Samkvæmt reiknivél TR þá fær 67 ára ellilífeyrisþegi sem hefur búið á Íslandi í 40 ár eftir 16 ára aldur í hjónabandi um kr. 270 þúsund eftir skatta í ráðstöfunarfé frá TR hafi hann engan lífeyrissjóð. Þar sem skattar eru ívið lægri á Spáni fyrir 65+ þá er hægt að reikna með að ráðstöfunin sé sú sama á Spáni og Íslandi í krónum talið (enda kosta gjaldmiðaskiptin), eða um 1.800 Evrur samkvæmt núverandi gengi.
Gengi íslensku krónunnar er, eins og þekkt er, stærsti óvissuþátturinn í afkomuhorfum Íslendinga á Spáni. Njóti fólk greiðslna frá lífeyrissjóði, t.d. 120 þúsund á mánuði þá hækkar ráðstöfunarféð um fjórðung, þ.e. um 30 þúsund. Flestir hafa áunnið sér einhvern rétt til lífeyrisgreiðslna og þeir koma því þessu til viðbótar. Þeir sem njóta heimilisuppbótar á Íslandi missa hana við flutning úr landi og því er ekki gert ráð fyrir henni í þessum samanburði.
Kaupmáttur 1.800,00 Evra í Reykjavík er að meðaltali sá sami og 967,72 Evra í Alicante (að því gefnu að þú greiðir leigu á báðum stöðum). Í þessum samanburði er gert ráð fyrir hreinum tekjum eftir tekjuskatt hvort sem hann er greiddur til Spánar eða Íslands. Það má því áætla að afkoman á Spáni sé um það bil 85% betri en á Íslandi eftir að fólk hefur komið sér fyrir og þá er miðað við að leigja á báðum stöðum. Það skal tekið fram að í þessu er ekki gert ráð fyrir flugmiðum og ýmsum kostnaði við að koma sér fyrir.
Til að fá betri innsýn í samanburðinn geturðu skoðað: Samanburður á framfærslukostnaði í Reykjavik og Alicante
Ef þú vilt sjá áætlaðan eigin framfærslukostnað í Alicante þá geturðu gert það hér: Cost of living Estimator for Alicante
Vefsíðan er á ensku en það er hægt að þýða hana á íslensku í vöfrum.