Þjófum að þakka að Kalli á Spáni varð til


Karl Kristján Hafsteinn Guðmundsson er „íslenskum Spánverjum“ að góðu kunnur sem Kalli á Spáni.

Eftir tíu daga vetrarleyfi á Spáni árið 2018 sagði ég í framhaldinu upp vinnunni og við hjónin mátuðum okkur við Spán veturinn á eftir. Þá var ég sextugur og hafði unnið á kvöld-, nætur- og helgarvöktum sem öryggisvörður hjá Reykjavíkurborg á Vitatorgi í tæp níu ár,“ segir Karl Kristján Hafsteinn Guðmundsson, sem margir þekkja sem Kalla á Spáni. Kalli er 64 ára prentsmíðameistari, Hafnfirðingur úr Hvaleyrarholtinu, fjögurra barna faðir og afi sjö barnabarna.

Þau hjónin hafa æ síðan búið í Torrevieja á Spáni og una hag sínum vel.

„Við komum þó til Íslands á hverju sumri og erum þá í nokkrar vikur á 30 ára gamla húsbílnum okkar, nema hvað við komumst ekki eitt sumarið í Covid-firrunni. Það er gott að búa á Spáni á íslenskum lágmarkstekjum lífeyris vegna verðlagsins og veðrið hér er á við gott íslenskt sumarveður. Það fer betur í liðina en íslensk, rysjótt veðráttan. Sjálfur fer ég ekki á baðstrendur, ég spila ekki golf og stunda ekki sólböð, en það er hlýjan og verðlagið sem freistaði okkar,“ greinir Kalli frá.

Google bauð heim til Los Angeles

Kalli heldur úti vinsælli vefsíðu fyrir Íslendinga sem búa í Torrevieja og á Spáni: kalli.is. Hann segir frá því hvernig það kom til.

„Undir lok fyrsta vetrarins okkar á Spáni keyptum við bíl til að geta farið víðar en fótgangandi um næsta nágrenni. Íslendingar voru duglegir að hittast í Múlakaffi, á Sundlaugarbarnum, Klaustursbarnum og víðar. Einnig voru hér vinsælir götumarkaðir, svo sem Laugardagsmarkaðurinn og Sítrónumarkaðurinn og svo hittust Íslendingar líka til að spila félagsvist og bridge. Hinir nýkomnu, eins og við, rötuðu ekki á þessa hittinga og því var nokkur barningur að finna þá,“ segir Kalli sem tók það til bragðs að útbúa viðburðadagatal þar sem íslensku staðarnöfnin voru notuð ásamt þeim spænsku, sem og staðsetningar á kortum frá Google Maps.

„En staðsetningarnar hjá Google Maps voru yfirleitt rangar. Því fór ég á stúfana, fann þessa staði og leiðrétti vitleysuna hjá þeim. Það gekk meira að segja svo langt að Google bauð mér til höfuðstöðva sinna í Los Angeles, en ég nennti ekki að fara í slíka ferð,“ segir Kalli og hlær.

Kalli á Spáni og ritstjórinn Kappi við prófarkarlestur.

Afdrifaríkt innbrot

Það var svo einn morguninn að brotist var inn í sólstofu Kalla og konu hans, Sigurveigar Sigurðardóttur.

„Þar hvarf meðal annars spjaldtölvan, en það er þjófunum að þakka að vefsíðan Kalli á Spáni, eða kalli.is, varð til. Ég átti fartölvu sem ég hafði ekkert notað og tók hana til brúks. Ég átti líka lénið kalli.is en hafði aldrei gert neitt við það. Þremur dögum síðar var svo vefsíðan kalli.is komin í loftið, vefur sem birtir ýmislegt sem gagnast Íslendingum á Spáni. Þar eru upplýsingar um hvað eina sem snýr að þeim sem vilja flytja til Spánar, til dæmis ýmis eyðublöð og meira að segja skattareiknivél sem ég útbjó og viðheld,“ upplýsir Kalli.

Hann segir „íslensku Spánverjana“ ánægða með vefinn.

„Þeim þykir gott að geta séð allt sem skiptir þá máli á einum stað. Viðburðadagatalið tók um leið stakkaskiptum og er nú hluti af vefnum. Þar getur fólk sett inn sína viðburði sjálft, eða fengið aðstoð við það, og sömuleiðis auglýst frítt. Áskriftin er ein evra á mánuði, sem er hugsuð til að greiða kostnaðinn af vefnum á móti mér. Það fyrirkomulag hefur reynst vel og mælist kalli.is með einkunnina A.“

Fara heim til Íslands til að hvíla sig

Tilveran í Torrevieja er rík af félagslífi og góðum stundum.

„Íslendingar á íslenskum ellilífeyri láta vel af sér á Spáni. Margir eru á leið heim um jólin, aðallega til að hvíla sig. Það er svo mikið um að vera hérna á Spáni. Við hjónin erum reyndar afskaplega heimakær, við förum sjaldan á hittinga, bari eða út að borða. Það má eiginlega segja að við séum efnahagslegir flóttamenn frá Íslandi,“ segir Kalli.

Hann segir Íslendinga duglega að halda hópinn og eignast nýja vini í samfélagi sínu í Torrevieja.

„Fólk er afar upptekið og þau sem héldu að það yrði ekkert um að vera eftir starfslok hafa aldrei haft meira að gera. Þau sem fóru aldrei út að borða heima á Íslandi, nema kannski á árshátíðir, fara nú nokkrum sinnum í viku. Þá er Íslendingafélagið á Spáni það virkasta í heimi, þegar litið er til annarra Íslendingafélaga, og Félag húseigenda á Spáni er yfir þrjátíu ára gamalt, opið öllum og með þjónustu- og öryggisfulltrúa hér á svæðinu,“ upplýsir Kalli.

Fyrir ári síðan hafi íslenskur söfnuður verið stofnaður á Spáni, er nefnist Luther (sjá luther.is).

„Nú hefur íslenski söfnuðurinn fengið inni í glænýrri, sænskri kirkju með barnastarfið sitt og næsta sunnudag verður þar aðventu- og jólaguðsþjónusta þar sem presturinn okkar, séra Ragnheiður Karítas Pétursdóttir, og séra Gísli Gunnarsson, vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal, þjóna fyrir altari. Þar verða sungin íslensk jólalög og í stuttu máli er allt að gerast á Spáni,“ segir Kalli.

Séð yfir hluta Torrevieja úr lofti. Glæsilegar byggingar, sundlaugar og snyrtilegur bær þar sem fer vel um fjölmarga Íslendinga sem þar njóta lífsins árið um kring. MYND/PEXELS

Fjölgar sífellt í hópi Íslendinga

Þegar Kalli og Sigurveig fluttu til Spánar töluðu þau ekki stakt orð í spænsku.

„Við fórum á spænskunámskeið í nokkur skipti en þegar við ætluðum að æfa okkur í notkun tungumálsins í búðum og á veitingastöðum var okkur alltaf svarað á ensku. Aftur á móti vilja opinberir aðilar nær eingöngu tala spænsku og því verður maður að hafa túlk með sér, sérstaklega þar sem tímapantanir eru umsetnar. Ég hef meira að segja lent í því að næsta manneskja á undan í röðinni var afgreidd á ensku en svo þegar kom að mér var bara töluð spænska og örlaði ekki á neinum enskuskilningi. Margir hafa líka upplifað að vera afgreiddir á ensku en svo hafi verið svissað yfir í spænsku ef erindið varð óþægilegt,“ upplýsir Kalli.

Hann segir sífellt fleiri Íslendinga flytja utan til Spánar.

„Já, samfélag Íslendinga á Spáni fer ört stækkandi því dýrtíðin á Íslandi er allt að drepa. Það er vonandi að Seðlabankinn haldi fast í gengi íslensku krónunnar gagnvart evrunni svo Ísland fái ekki allt þetta fólk í hausinn. Það er ljóst að heilbrigðis- og félagsmálakerfin heima þyldu ekki álagið sem fylgdi slíkum hreppaflutningum Íslendinga frá Evrópu.“

Í venjulegu árferði var verðlag á Spáni um 55 prósent af því sem Íslendingar eiga að venjast á Íslandi.

„Þessi munur, er að mér finnst, ívið meiri þótt vöruverð hafi hækkað á báðum stöðum. Þar munar mestu um stýrivaxtabreytingar Seðlabanka Íslands. Mér finnst sorglegt þegar ungt fólk er platað í ágætis lánakjör með 0,5 prósenta stýrivöxtum og þeir síðan hækkaðir í 6 prósent á stuttum tíma. Þetta þýðir hreinlega að fólk sem á sér lítið bakland missir allt sitt innan árs til þeirra sem standa þessa hækkun af sér,“ segir Kalli.

Íslendingar eru duglegir að hittast og halda hópinn í Torrevieja. Hér má sjá samfundi á Sundlaugarbarnum. MYND/AÐSEND

Veðrið og verðið heillar mest

Það líður senn að jólum og tindrandi jólaljós farin að skína skært í Torrevieja.

„Íslendingarnir eru margir farnir að setja upp jólaljós, Félag húseigenda á Spáni var með fyrsta opinbera jólasamsæti Íslendinga á föstudaginn var og aðventukaffi á sunnudögum er víða byrjað. Matkráin Bar-Inn, sem er í eigu ungrar íslenskrar konu, er til dæmis talin vera mest skreytti barinn á svæðinu og þar verða „litlu jólin“ haldin í desember og hátíðarmatur öll jólin,“ segir Kalli.

Hann segir Íslendinga vel liðna af heimamönnum í Torrevieja.

„Spánverjar eru almennt hrifnir af Íslandi, margir hafa lagt leið sína þangað og hjá enn fleirum er Íslandsferð á óskalistanum. Íslendingar sem eru hér á Spáni njóta þessarar velvildar.“

Spurður hvað honum líki best við lífið og tilveruna í Torrevieja, svarar Kalli:

„Í stuttu máli veðrið og verðið. Tíðarandinn er líka afslappaðri. Spánverjar eru ekki að flýta sér eins mikið og Íslendingar, svo hér er minna stress.“

En fær hann stundum heimþrá?

„Nei, eiginlega ekki. Samskipti við ættingja og vini eru mestmegnis á netinu og í síma. Maður er ekkert ómissandi,“ segir hann og hlær.

Sjá viðtalið í PDF frá vef Fréttablaðsins.

Loading

Deila: